154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

690. mál
[19:06]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Dagbjartar Hákonardóttur. Það er náttúrlega þannig að í mörgum sveitarfélögum eru mjög margar íbúðir eða húsnæði sem er notað í heimagistingu og í sumum sveitarfélögum þá er það bara þannig að það eru fleiri gistinætur fyrir þetta rými, fyrir Airbnb t.d. og heimagistingu, heldur en er á hótelum á því svæði, en þau eru ekki að borga sama skatt. Í þessu frumvarpi ákvað nefndin að við værum einungis að taka rekstrarleyfisskylda gististarfsemi fyrir en nefndin hafði mikinn áhuga á þessu umræðuefni og hvernig hægt væri að koma til móts við þetta vandamál, sem mér finnst vera í sumum sveitarfélögum, á annan hátt þannig að við lögðum til að ráðherra sveitarstjórnarmála myndi leggjast yfir þetta og skoða þetta betur. Í sumum tilfellum höfum við heyrt að þingmenn vilji bara loka alfarið á heimagistingu. Það eru einhverjir sem eru á því. Það er verið að setja mikil takmörk á þetta í ýmsum löndum og þetta er eitthvað sem er vilji til þess að gera í sumum sveitarfélögum. Þetta er því eitthvað sem við þurfum bara að leggjast yfir og skoða mjög vel. Við ákváðum í nefndinni að vera einungis að ræða hér rekstrarleyfisskylda gististarfsemi og að við myndum ekki leggja til breytingu á þessu, en við hvetjum hæstv. ráðherra til að skoða þetta betur.